Viðskipti innlent

Lítið lát á kaupgleði með kortum

Kortið straujað.
Kortið straujað. MYND/VILHELM

Heildarvelta vegna kreditkortanotkunar nam 23,6 milljörðum króna í júlí. Þetta er örlítið minni notkun en í mánuðinum á undan. Raunaukning kreditkortaveltu nemur hins vegar 10 prósentum frá sama mánuði í fyrra. Erlend kortavelta jókst á sama tíma um 24 prósent á milli ára.

Greiningardeild Glitnis segir í Morgunkorni sínu í dag að lítið lát virðist á kaupgleði íslenskra neytenda, sér í lagi hafi þeir nýtt tækifærið til að versla mikið í öðrum löndum þegar gengi krónunnar stóð sem hæst í sumar.

Greiningardeildin segir mjög sterkt samband milli þróunar á raunaukningu kreditkortaveltu að viðbættri debetkortaveltu í innlendum verslunum annars vegar og einkaneyslu. Ef marka megi kortaveltu á öðrum ársfjórðungi hafi einkaneysla því tekið að vaxa á ný eftir 1,2 prósetna samdrátt á fjórða ársfjórðungi. Megi gera ráð fyrir að einkaneysla hafi verið á bilinu 2 til 3 prósent.

Sé miðað við kortaveltuna í júlí megi segja að þriðji ársfjórðungur byrji vel, að sögn greiningardeildar Glitnis, sem þó bætir við að hræringar á markaði síðustu daga kunni að slá á bjartsýni neytenda og draga úr vexti einkaneyslu með haustinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×