Fótbolti

Henry er enn að venjast gömlu stöðunni

NordicPhotos/GettyImages

Franski framherjinn Thierry Henry hefur verið látinn í sína gömlu stöðu á vinstri vængnum í fyrstu leikjum sínum með Barcelona á Spáni. Henry viðurkennir að hann sé enn að venjast stöðunni sem hann spilaði þegar hann var hjá Juventus, reyndar með misjöfnum árangri.

"Ég verð að komast aftur upp á lag með að spila á vinstri vængnum því það er langt síðan ég hef spilað þessa stöðu," sagði Frakkinn. Hann hefur til þessa fiskað vítaspyrnu fyrir Barcelona, en hefur ekki náð að skora.

"Ég er búinn að fiska víti og skjóta í báðar stangirnar, svo ætli ég skjóti ekki í slá í næsta leik og skori svo í þeim næsta," sagði Henry. Hann var á vængnum í síðasta leik þar sem Messi var á hægri vængnum og Ronaldinho var í framlínunni í stað hins meidda Samuel Eto´o.

"Ég er viss um að ég á eftir að ná mér vel á strik með Barcelona fljótlega og ég verð að segja að viðbrögð stuðningsmanna liðsins komu mér á óvart. Það var frábært að spila fyrir fólkið og mig langaði helst að vera lengur inni á vellinum eftir að flautað var af til að sýna þeim meira," sagði Henry í samtali við breska blaðið Independent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×