Innlent

Menn á vegum lög­manns leita að Hörpu

MYND/Harpa

Jóhannes R. Jóhannsson, lögmaður aðstandenda þeirra sem létust þegar skemmtibáturinn Harpa steytti á Skarfaskeri haustið 2005 segir að menn á hans vegum séu nú að leita að bátnum. Svo gæti farið að leitin nái út fyrir landsteinana en Jónas segist hafa selt bátinn áður en farið var fram á svokallaða löggeymslu á honum.

Jóhannes segir í samtali við Vísi að það sé gott að fá það fram að Jónas segist ekki hafa átt bátinn á þessum tíma. Hingað til hafi hann haldið öðru fram, meðal annars fyrir héraðsdómi. Sýslumaðurinn í Reykjavík féllst á það í desember 2006 að báturinn yrði tekinn í löggeymslu. Þá hafði dómur fallið í málinu í héraðsdómi og beðið var dóms Hæstaréttar. Eftir að dómur féll í Hæstarétti var fjárnámsbeiðni lögð fram. Nú finnst báturinn hins vegar hvergi og því ekki hægt að bjóða hann upp.

„Þegar löggeymslugerðin sjálf var gerð fórum við og skoðuðum bátinn þar sem hann var geymdur í Garðabæ," segir Jóhannes. „Þegar báturinn var síðan tekinn í löggeymslu fór ég aftur og skoðaði bátinn og það get ég sannað," segir Jóhannes. Hann bendir á að Jónas hafi aldrei gert neinar athugasemdir við löggeymsluna og að hann hafi aldrei minnst á að báturinn hefði verið seldur.

Erfitt gæti hins vegar verið að sýna fram á hver átti bátinn og hvenær, þar sem hann var aldrei skráður hér á landi. Jóhannes segir að ekkert styðji þann framburð Jónasar að báturinn hafi verið seldur í byrjun árs, 2006. Jónas hafi haft fjölmörg tækifæri til að sýna fram á að hann ætti ekki bátinn og það hafi hann ekki gert. Jóhannes segir einnig að ef í ljós komi að Jónas hafi selt bátinn í trássi við löggeymslugerðina verði Jónas væntanlega ákærður enda um refsivert brot að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×