Fótbolti

Del Piero vill ekki launalækkun

Del Piero er goðsögn hjá Juventus
Del Piero er goðsögn hjá Juventus NordicPhotos/GettyImages

Samningaviðræður Alessandro del Piero og forráðamanna Juventus eru enn á ný komnar í strand. Del Piero kemur til með að þurfa að sætta sig við launalækkun ef hann ætlar að spila áfram með liðinu og það þykir bróður hans og umboðsmanni blóðugt.

Viðræðurnar stóðu yfir í allt sumar og sigldu í strand í dag eftir að þær höfðu verið teknar upp að nýju. Samningur hins 32 ára gamla Del Piero rennur út í júní næsta sumar, en félagið vill halda honum í sínum röðum þangað til árið 2010 - árið sem hann ætlar að leggja skóna á hilluna.

Del Piero er sagður ánægður með lengd samningsins en er ekki til í að taka þá 30% launalækkun sem Juventus býður honum - sérstaklega í ljósi þess að félagi hans Pavel Nedved er sagður hafa fengið hækkun í sambærilegum samningi. Þetta þykir Del Piero vera virðingarleysi og ljóst að honum fer fljótlega að verða frjálst að ræða við önnur félög ef samningar nást ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×