Fótbolti

Rijkaard: Eiður lék mjög vel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frank Rijkaard, knattspyrnustjóri Barcelona.
Frank Rijkaard, knattspyrnustjóri Barcelona. Nordic Photos / AFP

Frank Rijkaard lofaði Eið Smára Guðjohnsen mikið eftir leik Börsunga í spænsku bikarkeppninni í fyrrakvöld.

Eiður skoraði annað mark Börsunga í 3-0 sigri á Alcoyano úr vítaspyrnu en hann lagði upp fyrsta markið fyrir Thierry Henry.

Í umfjöllun um leikinn á heimasíðu Barcelona segir að Eiður og Henry hafi náð að skapa sér mjög gott samband á vellinum. Eiður hafi til að mynda lagt upp annað færi fyrir Henry síðar í leiknum en í það skiptið hafnaði skot Frakkans í stönginni.

Eiður þurfti reyndar að taka vítaspyrnuna sína tvisvar þar sem fyrri spyrnan var dæmd ógild.

„Það er alltaf erfiðara að skora úr vítaspyrnu þegar það þarf að endurtaka hana," sagði Rijkaard. „Hann átti skilið að skora því hann átti gríðarlega góðan leik og var mjög óeigingjarn í vinnu sinni fyrir allt liðið. Hann spilaði svo sannarlega mjög vel."

Eiður er ekki óvanur því að skora í bikarleikjum því hann skoraði tvö mörk fyrir Börsunga gegn Badalona í fyrstu umferð bikarkeppninnar í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×