Fótbolti

Eiður Smári í hópi Börsunga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/E. Stefán

Eiður Smári Guðjohnsen er í leikmannahópi Barcelona sem mætir Espanyol í spænsku úrvalsdeildinni á morgun.

Hann meiddist lítillega í leiknum gegn Lyon í Meistaradeild Evrópu í vikunni en hefur fengið skjótan bata. Frank Rijkaard, stjóri Barcelona, hefur ekki úr stórum hóp að velja vegna meiðsla og þarf að leita til leikmanna B-liðs Barcelona til að fylla listann.

Alls eru tíu uppaldir leikmenn hjá Börsungum í liðinu fyrir leikinn á morgun. Mikil eftirvænting er fyrir leikinn sem er grannaslagur en aðeins tvö stig skilja að liðin í deildinni.

Þeir Alberto Botía og Victor Sánchez fá nú sjaldgæft tækifæri til að sanna sig fyrir Rijkaard. Botía er miðvörður og Sánchez miðvallarleikmaður.

Ronaldinho, Messi og Bojan eru allir í hópnum en þeir Henry, Eto'o, Deco, Oleguer, Giovani og Sylvinho eru allir frá vegna meiðsla.

Í síðasta leik liðsins, gegn Lyon, var Ronaldinho á varamannabekknum og kom inn á fyrir Eið Smára á 71. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×