Fótbolti

Tveir leikir í Meistaradeildinni í kvöld

Kaka verður í eldlínunni í kvöld
Kaka verður í eldlínunni í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Keppni í D-riðli Meistaradeildar Evrópu lýkur í kvöld með tveimur leikjum, en þeim var flýtt vegna þátttöku AC Milan á HM félagsliða í Japan.

Spútniklið Glasgow Celtic frá Skotlandi sækir AC Milan heim á San Siro í kvöld þar sem skoska liðinu nægir jafntefli til að komast í 16-liða úrslit keppninnar, en þangað nær liðið hvort sem er ef Shakhtar Donetsk nær ekki að leggja Benfica að velli. Sigur hjá Milan þýðir að liðið tryggir sér efsta sætið í riðlinum.

Leikirnir tveir í kvöld hefjast klukkan 19:45 og byrjar bein útsending frá leikjunum á rásum Sýnar klukkan 19:35. Leikur Milan og Celtic er á Sýn en leikur Shakhtar og Benfica er á Sýn Extra.

"Við munum reyna að vinna leikinn í kvöld," sagði Gordon Strachan, þjálfari Celtic. Lið hans hefur unnið alla heimaleiki sína í Meistaradeildinni í haust en útivallaárangur liðsins hefur jafnan verið það sem hefur staðið liðinu fyrir þrifum í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×