Fótbolti

Vill enginn ráða Lippi?

Lippi er enn að bíða eftir almennilegu atvinnutilboði
Lippi er enn að bíða eftir almennilegu atvinnutilboði NordicPhotos/GettyImages

Ítalski þjálfarinn Marcello Lippi virðist ekki hafa fengið mörg símtöl undanfarið en hann er enn á ný að auglýsa sig á lausu í viðtölum við fjölmiðla. Lippi stýrði síðast ítalska landsliðinu til sigurs á HM í fyrra, en eina tilboðið sem vitað er að honum hafi verið boðið formlega til þessa er staða knattspyrnustjóra hjá Birmingham.

Það tilboð þótti ítalska meistaranum ekki boðlegt og nú minnir hann grimmt á að hann vilji ólmur taka til starfa á nýju ári.

"Ég mun snúa aftur á bekkinn á næsta ári, það er alveg 100% öruggt," sagði Lippi. "Ég vil fara aftur að vinna en ég vil helst taka við hreinu borði og byrja að vinna í upphafi nýrrar leiktíðar."

Lippi er 59 ára gamall og gerði garðinn frægan hjá Juventus í tvígang, þar sem hann vann fimm Ítalíumeistaratitla. Þá vann hann einnig sigur í Meistaradeildinni með liðinu og varð þrisvar í öðru sæti. Einu sinni tapaði hann í úrslitaleik Evrópukeppni félagsliða og þá vann hann nokkra minni titla með Juventus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×