Bílasölum virðist lítast vel á þann möguleika að hefja útflutning á notuðum bílum. Þeir standa nú þúsundum saman á plönum, vegna mikils innflutnings á nýjum bílum.
Viðskiptaráð Íslands segir að með einföldum breytingum á skatt- og gjaldheimtukerfi sé hægt að skapa skilyrði fyrir útflutning á ýmsum vörum sem fluttar hafa verið hingað til lands. Þar á meðal bílum.
Bílasölum sem Vísir ræddi við líst ágætlega á að stækka markað sinn með þessum hætti. Einn þeirra benti þó á að það væri ágætis hreyfing á notuðum bílum. Þeir liggi ekki lengi með sömu bílana.
Í áliti Viðskiptaráðs segir að það verði allra hagur að selja notuðu bílana úr landi. Ekki síst hefði það góð áhrif á vöruskiptajöfnuðinn.
Landið sé í góðri stöðu milli tveggja viðskiptavelda, Bandaríkjanna og Evrópu. Það hafi komið sér upp hagfelldri stöðu með aðild að EES og með því að gera mikinn fjölda fríverslunarsamninga.