Innlent

Sex sakborningar í Fáskrúðsfjarðarmálinu

Sex manns  eru taldir sakborningar í Pólstjörnumálinu á Fáskrúðsfirði sem kom upp í haust. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem hefur lokið rannsókn sinni og sent málið til ríkissaksóknara.

Niðurstaða embættisins er sú að rökstuddur grunur sé um stórfelld brot á lögum um ávana- og fíkniefni og almennum hegningarlögum.

Bent er á að rannsókn málsins hafi verið umfangsmikil og teygt anga sína víða, þar á meðal til Þýskalands, Hollands, Færeyja, Danmerkur og Noregs.

Mánuðum saman stóð yfir rannsókn á hugsanlegum innflutningi á miklu magni af fíkniefnum hingað til lands sem síðar leiddi til handtöku þriggja manna í og við skútu á Fáskrúðsfirði að morgni 20. september síðastliðins. Um fjörtíu kíló af fíkniefnum, amfetamín, e-pillur og efni til e-pillugerðar fundust í skútunni og við húsleit í Færeyjum.

Í framhaldinu voru fleiri aðilir handteknir og yfirheyrðir og nú liggur fyrir sú niðurstaða sem áður var nefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×