Fótbolti

Xavi framlengir við Barcelona til 2014

Xavi skrifar undir fimm ára samning í næstu viku
Xavi skrifar undir fimm ára samning í næstu viku NordicPhotos/GettyImages

Miðjumaðurinn Xavier Hernandez hefur samþykkt að skrifa undir fimm ára framlengingu á samningi sínum við Barcelona á Spáni.

Það var forseti félagsins sem greindi frá þessu í dag og segir að skrifað verði undir í næstu viku.

Xavi, eða Xavier Hernandez Creus eins og hann heitir fullu nafni, verður 29 ára gamall í næsta mánuði og spilaði sinn fyrsta leik fyrir Barcelona fyrir 10 árum síðan.

Hann er fæddur í Tarassa í úthverfi Barcelona og gekk inn í ungmennalið félagsins aðeins 12 ára gamall. Þar var hann fljótur að vekja athygli á sér fyrir útsjónarsemi og góðar sendingar.

Xavi hefur unnið þrjá meistaratitla og einn Evrópumeistaratitil með Barcelona.

Hann spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Spánverja árið 2000 og hefur síðan spilað 69 landsleiki, þó hann hafi oft sagt að sig langi helst að spila fyrir landslið Katalóníu ef því yrði komið formlega á fót.

Xavi var kjörinn besti leikmaðurinn á EM síðasta sumar þegar Spánverjar urðu Evrópumeistarar landsliða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×