Körfubolti

Hlynur og Sigurður taka við þjálfun Snæfells

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur Bæringsson, leikmaður og þjálfari Snæfells.
Hlynur Bæringsson, leikmaður og þjálfari Snæfells. Mynd/E. Stefán
Hlynur Bæringsson og Sigurður Þorvaldsson, leikmenn Snæfells, hafa tekið við þjálfun liðsins af Jordanco Davitkov en samningi hans var sagt upp í gærkvöldi.

Auk Davitkov var samningum þriggja leikmanna sagt upp, þeirra Nate Brown, Tome Disiljev og Nikola Dzeverdanovic. Var þetta gert vegna efnahagsástandsins í landinu.

Hlynur sagði í samtali við Vísi að vonandi væri þetta fyrirkomulag tímabundið.

„Við ætlum að reyna að finna einhvern til að hjálpa okkur. En það eru engir peningar til," sagði Hlynur. „Þetta er auðvitað ekki fyrsti kostur að maður fari að þjálfa félagana sína en maður gerir bara það sem þarf að gera. Vonandi að maður komist sómasamlega frá þessu."

„Ég sé mikið eftir strákunum og vorkenni þeim að þeir hafi misst vinnuna. Ég efast um að ástandið í Makedóníu til dæmis sé mikið betra. Þetta er auðvitað hundleiðinlegt."

Þrjú félög í efstu deild karla í körfubolta hafa nú sagt upp samningu erlendu leikmanna sinna. Hlynur býst við að fleiri fylgi í kjölfarið.

„Maður bíður núna bara eftir frekari fregnum af þessum málum. En auðvitað fer þetta eftir liðunum. Ég skil auðvitað stöðu Tindastóls og Þórs mjög vel enda ekki með breiðan leikmannahóp."

Hann býst jafnvel við að toppliðin í deildinni - KR, Grindavík, Njarðvík og Keflavík - feti í sömu fótspor.

„Ef eitt toppliðið gerir þetta tel ég að hin muni fylgja fljótlega á eftir. KR og Grindavík eru gríðarlega vel mönnuð og hagnast langmest á þessu ástandi. En ég alls ekki að höfða til samviskunnar hjá þessum félögum. Ef einhver félög geta haldið útlendingum sínum er það vitaskuld hið besta mál."

„En það er ljóst að allar áætlanir bæði hjá deildinni og félögunum eru farnar út í veður og vind. Þetta verður erfitt. En maður hefur svo sem ekki mestar áhyggjur af körfuboltanum þessa dagana. Ég hef meiri áhyggjur af því að stór fyrirtæki víða um land muni lenda í vandræðum."

„Það verður áfram líf og fjör í körfuboltanum, svo mikið er víst."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×