Valur tapaði fyrir Hetti, 83-70, og hefur tapað fjórum af fyrstu sex leikjum sínum í Bónus deild karla.
Sævar Sævarsson beindi talinu að þeim Kenny og Kára í Bónus Körfuboltakvöldi á laugardaginn.
„Ég hef áhyggjur af Kára og Kaninn þeirra - maður vill helst ekki tala þannig um leikmenn að það sé kominn tími á að senda þá heim - en hann er engan veginn að bera þetta uppi,“ sagði Sævar.
„Auðveldi leikurinn hjá Val er að skipta þessum leikmanni út en ég hef meiri áhyggjur af þessu með Kára. Hann virðist ekki vera meiddur en hvort þetta sé bara söknuðurinn af því að Kristófer Acox er ekki með. Hvort það hafi þessi áhrif eða menn passi Kára svona svakalega vel. Mér finnst hann aðeins þurfa að stíga upp og taka meira til sín.“
Teitur Örlygsson tók í kjölfarið við boltanum.
„Kristófer er bara einn leikmaður. Þeir eru ofboðslega þunnir og hafa ekki efni á því að reka Sherif því þeir hafa ekki mannskap til að manna liðið almennilega núna. Ég veit ekki hvort þetta sé einhver skoðun hjá mér eða hvað en ég held að Valsmenn megi bara vera ánægðir að hafa unnið þessa tvo leiki. Þeir eru bara ekkert betri en þetta,“ sagði Teitur.
Innslagið úr Bónus Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.