Fótbolti

Emil skorar alltaf á æfingum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emil Hallfreðsson í leik með Reggina.
Emil Hallfreðsson í leik með Reggina. Nordic Photos / AFP

Þjálfari Reggina, Nevio Orlandi, vildi ekki skella skuldinni á Emil Hallfreðsson eftir að liðið tapaði fyrir Udinese í ítölsku bikarkeppninni í dag.

Emil misnotaði tvær vítaspyrnur í leiknum, bæði í venjulegum leiktíma sem og í vítaspyrnukeppninni en Udinese fór með sigur af hólmi í henni.

„Hann hefur alltaf tekið vítin og hann skorar alltaf á æfingum," sagði Orlandi í samtali við fjölmiðla eftir leik. „En það verður líka að hafa í huga hversu góður markvörðurinn var í leiknum."

Orlandi var þrátt fyrir allt ánægður með frammistöðu sinna manna. „Þetta var góður leikur gegn sterkum andstæðingi. Við héldum stöðu okkar vel og vorum hættulegir. Við bara náðum ekki að nýta færin okkar."

Reggina er í neðsta sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar. „Við höfum oft verið að spila vel en lukkan er ekki á okkar bandi. Markmið okkar er að halda úrvalsdeildarsætinu og er enn langt þar til tímabilinu lýkur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×