Körfubolti

Breiðablik gerði góða ferð til Keflavíkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nemanja Sovic skoraði 41 stig fyrir Breiðablik í kvöld en hér er hann í Fjölnisbúningnum.
Nemanja Sovic skoraði 41 stig fyrir Breiðablik í kvöld en hér er hann í Fjölnisbúningnum.
Breiðablik gerði sér lítið fyrir og lagði Keflavík í Iceland Express deild karla í kvöld. KR og Grindavík unnu einnig sína leiki og eru ósigruð á toppi deildarinnar. Jón Arnór Stefánsson var með þrefalda tvennu í sigri KR-inga.

Sigur Blika var nokkuð öruggur en staðan í hálfleik var 55-46. Sá munur jókst um tíu stig eftir fjórða leikhluta og voru lokatölur 107-86.

Nemanja Sovic var stigahæstur Blika með 41 stig auk þess sem hann tók tólf fráköst. Kristján Sigurðsson kom næstur með 23 stig.

Hjá Keflavík var Hörður Axel Vilhjálmsson stigahæstur með 21 stig og þeir Gunnar Einarsson og Þröstur Jóhannsson skoruðu átján stig hvor.

KR-ingar byrjuðu mjög vel á móti Snæfelli og höfðu þrettán stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 30-17. KR-ingar héldu þessum mun meira eða minna allt til loka og unnu ellefu stiga sigur, 91-80.

Jason Dourissau var stigahæstur með 21 stig, Jón Arnór Stefánsson sokraði nítján og Jakob Sigurðarson átján.

Jón Arnór átti reyndar stórleik og náði þrefaldri tvennu en auk stiganna nítján sem hann skoraði tók hann tíu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar.

Sigurður Þorvaldsson var heldur ekki langt frá því að ná þrefaldri tvennu en hann skoraði 24 stig, tók fjórtán fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Jón Ólafur Jónsson skoraði 21 stig og tók tíu fráköst.

Grindavík vann svo stórsigur á Skallagrími, 126-59. Páll Axel Vilbergsson og Guðlaugur Eyjólfsson voru báðir með 24 stig fyrir Grindavík. Þorsteinn Gunnlaugsson skoraði sextán stig fyrir Skallagrím og Sveinn Davíðsson fjórtán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×