Bandaríski álrisinn Alcoa, sem rekur álverið á Reyðarfirði, hagnaðist um 546 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 42 milljarða íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi. Þetta er nokkur samdráttur á milli ára en hagnaðurinn nam 715 milljónum dala á sama tíma í fyrra.
Sé hagnaðurinn brotinn upp nam hann 66 sentum á hlut nú samanborið við 81 sent í fyrra.
Þótt hagnaðurinn hafi dregist saman á milli ára er þetta engu að síður tveimur sentum yfir meðalspá greininga fréttastofu Reuters.
Tekjur álrisans á tímabilinu námu 7,6 milljörðum dala samanborið við 8,07 dali í fyrra. Það er jafnframt meira en spáð hafði verið.
Hár rekstrarkostnaður dró úr hagnaði félagsins en hátt álverð á tímabilinu hífði hann upp á móti, að sögn Reuters.
Líkt og fyrri ár er uppgjör Alcoa það fyrsta sem skilar sér í hús og merkir það að uppgjörshrinan vestanhafs fyrir afkomu þarlendra fyrirtækja á öðrum ársfjórðungi er hafin.