Fótbolti

Zanetti: Getum unnið alla

Elvar Geir Magnússon skrifar
Javier Zanetti.
Javier Zanetti.

Javier Zanetti, fyrirliði Inter, telur að liðið geti unnið hvaða andstæðing sem er eftir 4-0 sigurinn á Roma í gær. Inter slátraði Roma í viðureign toppliða síðasta tímabils.

„Þetta var góður sigur. Það er aldrei auðvelt að vinna í Róm en við höfum frábært lið og sú vinna sem við og þjálfari okkar hefur unnið er að bera ávöxt," sagði Zanetti.

„Það er að skapast sigurhefð hjá okkur og við getum unnið alla leiki svo lengi sem við höldum áfram á sömu braut." Zlatan Ibrahimovic skoraði tvö af mörkunum en Dejan Stankovic og Victor Obinna skoruðu hin mörkin. Það kom mjög á óvart að Jose Mourinho tefldi Obinna fram í byrjunarliðinu.

„Ég valdi Obinna því ég hef verið að vinna með honum alla síðustu viku á meðan aðrir leikmenn voru í landsliðsverkefnum," sagði Mourinho. „Ibra átti stórleik. Hann getur spilað í hvaða kerfi sem er og spilar fyrir liðið. Hann er mjög mikilvægur fyrir Inter."

Mourinho telur þó að lykillinn að stórsigrinum í gær hafi verið miðja liðsins. Hann hrósaði öllu liðinu en gagnrýndi þó Ricardo Quaresma sem hefur ollið vonbrigðum í byrjun tímabils.

„Quaresma þarf augljóslega að bæta leik sinn. Hann hefur mikla hæfileika en mætti horfa til Ibra og hvernig hann nýtur þess að spila," sagði Mourinho. Næsti leikur Inter er gegn Anorthosis Famagusta frá Kýpur í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×