Fótbolti

Messi bjargaði Barcelona

Messi tryggði Barcelona sigur á elleftu stundu
Messi tryggði Barcelona sigur á elleftu stundu AFP

Eiður Smári Guðjohnsen var í byrjunarliði Barcelona í kvöld þegar liðið vann 2-1 sigur á grönnum sínum í Espanyol á útivelli. Leo Messi tryggði Barcelona sigurinn með marki úr víti í uppbótartíma.

Heimamenn í Espanyol komust yfir eftir 20 mínútna leik, en misstu mann af velli skömmu fyrir hlé.

Eiði Smára var skipt af velli eftir klukkutíma leik og það var ekki fyrr en á 76. mínútu sem Thierry Henry náði að jafna fyrir Barcelona. Það var svo Argentínumaðurinn ungi sem tryggði gestunum sigurinn með vítaspyrnu í uppbótartíma eftir að brotið hafði verið á Samuel Eto´o.

Sigurinn fleytti Barcelona í þriðja sæti deildarinnar en liðin í kring eiga flest leik til góða á Katalóníuliðið.

Fyrr í kvöld vann Real Madrid viðlíka dramatískan sigur á Betis 2-1 á útivelli þar sem Ruud van Nistelrooy tryggði meisturunum sigur með marki í uppbótartíma.

Real er nú stigi á eftir toppliði Villarreal sem lagði Sporting Gijon 1-0 með marki frá ítalska framherjanum Giuseppe Rossi. Valencia getur náð toppsætinu með sigri á Deportivo á morgun.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×