Körfubolti

Yfirgnæfandi líkur á að Bailey fari heim

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Damon Bailey er hér fyrir miðri mynd.
Damon Bailey er hér fyrir miðri mynd. Mynd/ÓÓJ

Að sögn Óla Björns Björgvinssonar, formanns körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, eru yfirgnæfandi líkur á því að Damon Bailey, bandarískur leikmaður liðsins, verði leystur undan samningi sínum við félagið.

„Ég tel yfirgnæfandi líkur á því að við förum þessa leið. Okkur er einfaldlega bara ekki stætt á öðru," sagði Óli Björn.

Keflvíkingar ákváðu nú í hádeginu að senda sína erlendu leikmenn heim, bæði úr karla- og kvennaliði félagsins. Með kvennaliði Grindavíkur leikur Tiffany Roberson og er talið líklegt að hún fari sömu leið og Bailey.

„Ég hef því miður enga trú á því að okkar styrktaraðilar geti staðið við sína samninga, einfaldlega vegna þess að þeir geta það ekki. Það er bara ekki hægt að halda þessum útlendingum heima."

„Stjórnin mun funda í kvöld þar sem þetta verður væntanlega mikið rætt. Það er því von á tilkynningu frá okkur eftir fundinn."

„En það er ljóst að ef stjórnin ákveður þetta verður gríðarlega erfitt að þurfa að kveðja Damon. Þetta er öðlingsdrengur sem þjálfar þrjá yngri flokka hjá félaginu. Hann er þar að auki úrvalskörfuboltamaður."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×