Fótbolti

Emil misnotaði tvær vítaspyrnur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emil Hallfreðsson í leik með Reggina.
Emil Hallfreðsson í leik með Reggina. Nordic Photos / AFP

Emil Hallfreðsson fór heldur illa að ráði sínu er Reggina mætti Udinese á útivelli í 16-liða úrslitum ítölsku bikarkeppninnar í dag.

Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma en Reggina fékk vítaspyrnu á 88. mínútu. Markvörður Udinese, Emanuele Belardi, fékk rautt fyrir að brjóta á Djordje Rakic. Emil tók spyrnuna en skaut yfir markið.

Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni þar sem ekkert var skorað í framlengingunni heldur. Þrátt fyrir að Udinese hafi klárað leikinn með níu leikmönnum þar sem Fabio Quagliarella var einnig vikið af velli.

Bæði lið misnotuðu vítaspyrnu í fjórðu umferð vítaspyrnukeppninnar en skoruðu úr hinum. Þurfti því bráðabana til. Í sjöundu umferð misnotaði Giovanni Pasquale vítaspyrnu Udinese og var þá komið að Emil. Hann hefði getað tryggt Reggina sigur í leiknum en lét verja frá sér.

Það var svo í níundu umferð að annar leikmaður Reggina misnotaði sína spyrnu og urðu því lokatölur 8-7.

Emil var í byrjunarliði Reggina í fyrsta sinn síðan í lok september en síðast spilaði hann í deildarleik þann 29. október.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×