Fótbolti

Mourinho: Ég er með frábæran tannlækni

Jose Mourinho
Jose Mourinho NordcPhotos/GettyImages

Hinn litríki Jose Mourinho er þegar byrjaður að setja mark sitt á ítalska boltann eftir að hann tók við þjálfun Inter Milan.

Mourinho segist mjög hrifinn af ástríðunni í knattspyrnunni á Ítalíu og segir ákafa stuðningsmanna þar enn meiri en á Englandi. Þessi orð lét hann falla eftir að þúsundir stuðningsmanna Inter mættu á opna æfingu liðsins á dögunum.

"Ítalskir stuðningsmenn eru ólíkir þeim ensku. Á Englandi varir stuðningur þeirra í 90 mínútur en á Ítalíu finnurðu fyrir honum á hverjum degi," sagði Mourinho.

3,000 manns fylgdust með fyrstu æfingu Inter undir stjórn Mourinho og ekki voru minni læti þegar grannarnir í AC Milan kynntu Ronaldinho til sögunnar á dögunum, en þá mættu 40,000 manns til að hylla kappann.

"Mourinho - færðu okkur Lampard," hrópuðu stuðningsmenn Inter inn á æfingasvæðið á fyrstu æfingu hans.

Þjálfarinn sagðist líka vera hrifinn af nýju keppnistreyju Inter, en var samur við sig þegar hann var spurður út í treyjurnar. "Útlitið á treyjunni gerir okkur ekki að sigurvegurum," sagði Portúgalinn.

Ég er með frábæran tannlækni

Ítalskir fjölmiðlar minntu Mourinho líka á ummæli Carlo Ancelotti á sínum tíma, þegar AC Milan þjálfarinn minntist á þá staðreynd að Mourinho hefði ekki gert sérstaklega gott mót sem leikmaður á sínum tíma.

"Kannski er Ancelotti búinn að gleyma því að það var undir stjórn Arrigo Sacchi sem Milan spilaði besta boltann í sögu félagsins. Og Sacchi, líkt og ég sjálfur, var aldrei sérstakur knattspyrnumaður. Ég er með frábæran tannlækni, en ég hef samt aldrei fengið tannpínu," sagði Mourinho.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×