Körfubolti

Snæfell í úrslit eftir sigur í framlengdum leik

Elvar Geir Magnússon skrifar
Snæfell sendi Grindavík í sumarfrí í kvöld.
Snæfell sendi Grindavík í sumarfrí í kvöld.

Það var mögnuð spenna og miklar sviptingar í leik Snæfells og Grindavíkur í kvöld. Snæfell vann 116-114 í Stykkishólmi í ótrúlegum framlengdum leik.

Staðan í hálfleik var 49-62. Snæfell var stigi yfir eftir fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta höfðu Grindvíkingar yfirhöndina og voru því með þrettán stiga forystu í hálfleik.

Snæfellingar náðu að saxa á forskot gestana í seinni hálfleik og var síðasti leikhlutinn gríðarlega spennandi. Heimamenn komust yfir og spennustigið var mjög hátt. Þegar sex sekúndur voru eftir var staðan jöfn 106-106.

Snæfelli átti boltann en dæmt var skref. Grindvíkingar náðu ekki að nýta sér þær tvær sekúndur sem eftir voru og því framlengt.

Snæfellingar komust yfir 116-114 með körfu frá Justin Shouse þegar 11 sekúndur voru eftir af framlengingu. Grindvíkingar reyndu við þriggja stiga skot en það geigaði og Snæfellingar unnu. Frábær endurkoma hjá heimamönnum eftir að Grindavík hafði haft tögl og haldir.

Sigurður Þorvaldsson var besti maður vallarins og skoraði 39 stig fyrir Snæfell, Subasic 23, Justin Shouse 21 og Hlynur Bæringsson 18. Hjá Grindavík er Adam Darboe með 32 stig, Jamaal Williams 27 og Páll Axel Vilbergsson 19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×