Erlent

Er eilíft líf í sjónmáli?

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Frumur.
Frumur. MYND/Brighamsandwomens.org

Náttúrulegt ensím, sem gert getur frumur mannslíkamans ódauðlegar, gæti verið lykillinn að eilífri æsku.

Hvern fýsir að lifa að eilífu? söng rokksveitin Queen hér um árið og svarið virðist vera að einhverjir telji það eftirsóknarvert, að minnsta kosti halda vísindamenn við Krabbameinsrannsóknarmiðstöðina í Madrid á Spáni dauðahaldi í þá von og liggja nú yfir aðferðum til að auka magn ensíms sem líkaminn framleiðir sjálfur.

Ensím þetta kemur í veg fyrir að frumur deyi drottni sínum með því að viðhalda eins konar varnarhettu sem situr á enda litningakeðju og varnar því að hún byrji að trosna og eyðast. Tæknin er nákvæmlega sú sama og plasthólkurinn á enda skóreima byggir á sem kemur í veg fyrir ótímabært slit þeirra.

Það er þetta slit og eyðing litningakeðjunnar sem að lokum styttir frumum okkar aldur og flytur okkur á endanum yfir móðuna miklu. Ef marka má hvað gerist í músum, sem sífellt fórna lífi sínu á rannsóknarstofum í þágu mannkynsins, gæti aukið magn ensímsins telomerase lengt mannsævina um fjölda ára.

Þær mýs sem fengu tífalt magn þess lifðu helmingi lengur en aðrar. Þetta finnst einhverjum án efa gott og blessað - en hvað segja lífeyrissjóðirnir?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×