Fótbolti

Mourinho er til í kauplækkun í kreppunni

NordicPhotos/GettyImages

Þjálfarinn Jose Mourinho hefur sannarlega slegið í gegn á Ítalíu síðan hann tók við Inter Milan. Blöðin þar í landi slá upp fyrirsögnum með gullkornum hans í hverri viku.

Portúgalinn "einstaki" kom með svipuðum látum inn í ítalska boltann og hann gerði inn í þann enska á sínum tíma og hefur meintur hroki hans farið fyrir brjóstið á nokkrum kollegum hans.

"Mér er alveg sama hvort menn telja mig hrokafullan eða vingjarnlegan. Ég er ekki kominn það vel inn í menninguna enn sem komið er. Á Englandi báru menn til dæmis virðingu fyrir mönnum sem höfðu unnið titla, en hér í landi virðast menn þurfa að gera hið ómögulega til að öðlast virðingu. Kannski þarf ég að vinna deild á tunglinu líka til að öðlast virðingu hérna," sagði Mourinho.

Hann lýsir yfir áhyggjum sínum yfir efnahagsástandinu í heiminum og er til í að láta til sín taka ef með þarf.

"Ég er ekki sérfræðingur en ég geri mér grein fyrir að ástandið er alvarlegt. Ég veit ekki hvort það er orðið svo alvarlegt að maður þurfi að hafa áhyggjur, en ég mundi sætta mig við að fá lægri tekjur ef það kæmi öðrum að góðu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×