Fótbolti

Barcelona hætt að eltast við Adebayor

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emmanuel Adebayor, leikmaður Arsenal.
Emmanuel Adebayor, leikmaður Arsenal. Nordic Photos / AFP

Eftir því sem kemur fram í spænskum miðlum í dag hefur Barcelona gefist upp á að reyna að fá Emmanuel Adebayor frá Arsenal.

Varaforseti félagsins, Marc Ingla, fór til Lundúna til að ræða við Arsenal um möguleg kaup á bæði Adebayor og Alexander Hleb.

Arsenal er sagt hafa hafnað boði upp á 30 milljónir punda í Adebayor. Hleb er enn í biðstöðu en hann er talinn vilja fara frá Arsenal.

Á sunnudaginn verður haldin kosning um vantrauststillögu á Joan Laporta, forseta félagsins, og stjórn þess. Því vill núverandi stjórn ganga frá öllum leikmannakaupum fyrir helgina.

Ef Laporta þarf að stíga frá verða nýjar kosningar haldnar í september og er hætt við því að öll leikmannamál verða fryst þar til þá.

Það þýðir að ef menn eins og Samuel Eto'o, Ronaldinho og Eiður Smári Guðjohnsen verða enn í herbúðum Barcelona á mánudaginn mun það ekki breytast í bráð - ef Laporta þarf að hætta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×