Fótbolti

Buffon fylgist stoltur með úr stúkunni

Elvar Geir Magnússon skrifar
Gianluigi Buffon.
Gianluigi Buffon.

Gianluigi Buffon, markvörður Juventus, er hæstánægður með gott gengi liðsins í sinni fjarveru. Buffon hefur ekkert leikið síðan í byrjun október og austurríski markvörðurinn Alex Manninger leyst hann af.

Buffon er talinn einn besti markvörður heims en þrátt fyrir fjarveru hans hefur Juventus gengið allt í haginn, blandað sér í toppbaráttu ítölsku deildarinnar og staðið sig vel í Meistaradeildinni.

„Ég sný aftur á nýju ári. Vonandi verðum við í öðru sæti þá svo ég geti komið okkur upp í það fyrsta," sagði Buffon í gríni. „Nei án alls gríns þá hefur það sýnt sig að ég er ekki nauðsynlegur, liðið getur alveg unnið leiki án mín. Það er bara staðreynd."

„Manninger hefur leikið frábærlega og ég mun ekkert ganga aftur inn í liðið. Liðsfélagar mínir vita hvernig á að bregðast við mótlæti þó við vitum að við getum ekki unnið alla leiki. Við höfum trú á að við getum orðið meistarar á þessu tímabili og frammistaða Alessandro Del Piero að undanförnu hefur aukið þá trú."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×