Fótbolti

Þjálfari Espanyol rekinn

Elvar Geir Magnússon skrifar
Bartolome Marquez.
Bartolome Marquez.

Espanyol tilkynnti í dag að félagið hefði ákveðið að leysa Bartolome Marquez frá störfum eftir tap á heimavelli gegn Sporting Gijon um helgina. Þetta var fjórði tapleikur liðsins í röð en Espanyol situr nú í 17. sæti og er stigi frá fallsæti.

Marquez hefur verið í þjálfaraliði Espanyol í tíu ár en þetta var hans fyrsta tímabil sem aðalþjálfari liðsins. Talsmaður stjórnarinnar sagði ákvörðunina hafa verið erfiða enda væri Marquez sannur Espanyol-maður út í gegn.

Oscar Perarnau, aðstoðarþjálfari, stýrði æfingu Espanyol í dag en félagið hyggst taka sér tvo daga til að finna nýjan þjálfara í stað Marquez.

Marquez er 46 ára. Hann var leikmaður Espanyol í átta ár áður en hann tók við starfi við unglingaþjálfun hjá félaginu. Hann kleif upp metorðastigann og varð aðstoðarþjálfari aðalliðsins 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×