Fótbolti

Reggina heldur sæti sínu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Marco Materazzi (til hægri) klúðraði mikilvægri vítaspyrnu í dag.
Marco Materazzi (til hægri) klúðraði mikilvægri vítaspyrnu í dag. Nordic Photos / AFP

Reggina tryggði í dag sæti sitt í ítölsku úrvalsdeildinni með 2-0 sigri á Empoli. Inter gerði hins vegar jafntefli í dag.

Emil Hallfreðsson var ekki í leikmannahópi Reggina í dag. Liðið er nú í sextánda sæti deildarinnar með 39 stig, fimm stigum frá fallsvæðinu þegar ein umferð er eftir af deildinni.

Empoli féll úr deildinni í dag en Parma getur bjargað sér frá falli með sigri á meistaraefnunum í Inter í lokaumferðinni, ef Catania tapar á móti Roma.

Það eru einmitt Inter og Roma sem eiga enn möguleika á meistaratitlinum á Ítalíu. Eitt stig skilur að liðin fyrir lokaumferðina þar sem Inter gerði jafntefli við Siena í dag, 2-2. Marco Materazzi misnotaði vítaspyrnu hjá Inter undir lok leiksins.

Roma vann hins vegar 2-1 sigur á Atalanta og minnkaði þar með forskot Inter í eitt stig.

Barátta Fiorentina og AC Milan um fjórða sæti deildarinnar og þar með þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu er einnig mjög spennandi.

AC Milan var með eins stigs forystu á Fiorentina í dag en tapaði fyrir Napoli, 3-1. Á sama tíma vann Fiorentina sigur á Parma og er því komið með tveggja stiga forystu á AC Milan.

AC Milan mætir Udinese á heimavelli í lokaumferðinni og Torino tekur á móti Fiorentina.

Úrslit og helstu markaskorarar:

Inter - Siena 2-2

1-0 Patrick Vieira (11.), 1-1 Massimo Maccarone (30.), 2-1 Mario Balotelli (45.), 2-2 Houssine Kharja (69.).

Napoli - AC Milan 3-1

1-0 Marek Hamsik (36.), 2-0 Maurizio Domizzi, víti (69.), 3-0 Mariano Bogliacino (90.), 3-1 Clarence Seedorf (90.).

Roma - Atalanta 2-1

1-0 Christian Panucci (23.), 2-0 Daniele De Rossi (67.), 2-1 Gianpaolo Bellini (88.).

Fiorentina - Parma 3-1

Genoa - Lazio 0-2

Juventus - Catania 1-1

Livorno - Torino 0-1

Palermo - Sampdoria 0-2

Reggina - Empoli 2-0

Udinese - Cagliari 0-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×