Körfubolti

Keflavík komið í 1-0 gegn Snæfelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Justin Shouse skoraði átján stig fyrir Snæfell, þar af tíu í fyrsta leikhluta.
Justin Shouse skoraði átján stig fyrir Snæfell, þar af tíu í fyrsta leikhluta. Víkurfréttir/Jón Björn

Keflavík vann sigur á Snæfelli, 81-79, í fyrsta leik liðanna í úrslitum úrslitakeppni Iceland Express deildar karla.

Spennan var mikil í lok leiksins en Justin Shouse náði að minnka muninn í eitt stig, 80-79, með tveimur vítaköstum þegar 36 sekúndur voru til leiksloka.

Magnús Gunnarsson reyndi þriggja stiga skot fyrir Keflavík þegar fimmtán sekúndur voru eftir en klikkaði. Það gerði Jón Ólafur Jónsson líka þegar lítið var eftir en hitti ekki.

Tommy Johnson hirti frákastið og brutu Snæfellingar strax á honum. Setti hann fyrra vítið niður en það síðara geigaði. Leiktíminn var úti áður en Snæfellingar náðu frákastinu.

Snæfellingar byrjuðu betur en Keflvíkingar voru aldrei langt undan og náðu frumkvæðinu um miðjan fyrsta leikhlutann.

Keflavík hafði þriggja stiga forystu þegar annar leikhluti hófst, 25-22, en Snæfellingar náðu að jafna metin í stöðunni 37-37. Þá komu sex stig í röð frá Keflavík en Snæfellingar náðu að svara með fjórum stigum á móti.

Staðan í hálfleik var 44-41, Keflavík í vil, og voru heimamenn áfram með frumkvæðið í þriðja leikhluta. Snæfellingar voru þó aldrei langt undan og náðu að komast yfir í blálokin.

Justin Shose setti niður tvö vítaköst þegar fimm sekúndur voru eftir af þriðja leikhlutanum og kom Snæfelli yfir, 65-64.

Keflvíkingar byrjuðu fjórða leikhlutann af miklum krafti og skoruðu átta stig í röð og breyttu þar með stöðunni í 72-65.

Eftir það skiptust liðin að setja niður þrista og var mikil spenna á lokamínútunum sem fyrr segir.

Stigahæstur hjá Keflavík var BA Walker með 22 stig og hann var einnig með sjö fráköst og fimm stoðsendingar. Tommy Johnson kom næstur með átján stig og sex fráköst.

Hjá Snæfelli skoruðu þeir Justin Shouse og Sigurður Þorvaldsson átján hver en Shouse var með sjö stoðsendingar. Hlynur Bæringsson var með þrettán stig og fjórtán stoðsendingar.

Annar leikur liðanna í úrslitarimmunni verður á mánudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×