Fótbolti

Capello talaði máli Beckham hjá Milan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Beckham og Fabio Capello í leik með enska landsliðinu.
David Beckham og Fabio Capello í leik með enska landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images

Enskir fjölmiðlar halda því fram í dag að það hafi verið Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga, sem sá til þess að David Beckham yrði lánaður til AC Milan í vetur.

Beckham er á mála hjá LA Galaxy sem leikur í bandarísku MLS-deildinni en tímabilinu í Bandaríkjunum lýkur á næstunni. Í fyrra æfði Beckham með liði Arsenal en lék þó ekki með liðinu.

Í gær var sagt frá því að Galaxy myndi lána Beckham til ítalska úrvalsdeildarfélagsins AC Milan í nokkra mánuði frá og með áramótum.

Enskir miðlar halda því fram að bæði Capello og Franco Baldini, einn aðstoðarmanna hans, hafi talað máli Beckham hjá Milan. Capello var bæði leikmaður og þjálfari Milan á sínum tíma og hefur mikil ítök þar.

Capello vildi einnig ganga úr skugga um að Adriano Galliani, framkvæmdarstjóri og varaforseti AC Milan, hefði ekki einungis áhuga á Beckham af markaðslegum ástæðum. Enda hefur Carlo Ancelotti, stjóri AC Milan, sagt að hann vilji gjarnan nota hann standi Beckham honum til boða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×