Erlent

Rússar og Evrópubúar sameinast um geimferð til tunglsins

Unnið er að því að Rússar og Evrópubúar sameinist um að senda mannað geimfar til tunglsins. Þetta kemur fram á vefsíðu rússnesku geimferðastofnunarinnar Roskosmos.

Á vefsíðu Roskosmos segir að fyrstu tilraunaferðirnar yrðu farnar árið 2015 og að sjálf förin til tunglsins sé áformuð árið 2018. Ennfremur er sagt að rússnesku og evrópsku geimferðastofnanirnar hafi bæði til að bera tækniþekkingu og reynslu í hönnun geimfarartækja sem geri þeim kleyft að ráðast í þetta verkefni í sameiningu.

Samkvæmt því sem Roskosmos segir er ætlunin að geimfarið sem smíðað verður geti borið allt að sex geimfara á braut um tunglið en ekki kemur fram hvort fyrirhugað sé að lenda á tunglinu.

Evrópska geimferðarstofnunin ESA er varkárari í yfirlýsingum sínum um hið sameiginlega verkefni. Franco Banacia talsmaður ESA segir það vera rétt að útlínur þessa verkefnis séu til staðar en að ekkert hafi enn verið ákveðið í þessum efnum og of snemmt sé að slá því föstu nú að af mannaðri geimferð til tunglsins verði eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×