Fótbolti

Eiður Smári: Nú má Real klappa fyrir okkur

Eiður Smári Guðjohnsen
Eiður Smári Guðjohnsen AFP

Eiður Smári Guðjohnsen segir að leikmenn Barcelona hafi lítinn áhuga á að endurtaka leikinn frá í fyrra þegar þeir þurftu að klappa fyrir erkifjendum sínum í Real Madrid eftir að þeir tryggðu sér meistaratitilinn.

Í síðari deildarleik liðanna á síðustu leiktíð var Real Madrid þegar búið að tryggja sér titilinn og því stilltu leikmenn Barcelona sér upp og klöppuðu fyrir mótherjum sínum þegar þeir gengu inn á Bernabeu völlinn í Madrid.

Þetta er gömul hefð sem tíðkast m.a. líka á Englandi, en á Spáni er þessi athöfn kölluð pasillo.

Eiður Smári sagðist ekki vilja endurtaka leikinn frá í fyrra í viðtali við spænska blaðið Sport, en síðari leikur liðanna verður í maí.

"Ég vil ekki þurfa að taka pasillo aftur. Ég vona að á þessari leiktíð verði það þeir sem þurfa að klappa fyrir okkur," sagði Eiður.

Fyrri leikur liðanna er á laugardagskvöldið í Barcelona og Eiður og félagar eru klárir í slaginn eftir að hafa verið í miklu stuði undanfarið.

"Allir vita hve mikið vægi þessi leikur hefur. Hann er upp á margt og meira en þrjú stig og spurning um stolt leikmanna. Við getum tekið skref í átt að titlinum með sigri í þessum leik," sagði Eiður.

Hann segir mikið hungur í herbúðum Barcelona. "Okkur gengur vel núna og við trúum að við getum unni titil af því liðið er allt mjög hugnrað. Lykillinn hefur verið að blanda í þetta meiri vinnu og fórnfýsi. Messi er farinn að hlaupa 40 metra til baka og öllum finnst hann vera að spila betur en í fyrra," sagði Eiður.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×