Fótbolti

Abidal vill ekki spila

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eric Abidal í leik með Barcelona.
Eric Abidal í leik með Barcelona. Nordic Photos / Getty Images

Eric Abidal hefur beðið Frank Rijkaard, stjóra Barcelona, að kippa sér út úr byrjunarliðinu vegna þess að hann er óánægður með eigin frammistöðu.

Það hefur ýmislegt gengið á í herbúðum Börsunga undanfarnar vikur. Fréttir þess efnis að Ronaldinho sé á leið til Ítalíu hafa tröllriðið fjölmiðlum en hann hefur ekki spilað með Barcelona lengi vegna meiðsla.

Það hafa reyndar ýmsir gefið í skyn að Ronaldinho sé alls ekkert meiddur, heldur að hann hafi verið útskúfaður vegna þess að hann hafi lagt of mikla áherslu á félagslífið sitt.

En Abidal segir að sér hafi gengið illa að aðlagast spænsku knattspyrnunni. „Ég vil vera 100 prósent en ég er ekki ánægður með sjálfan mig. Ég lít því á það sem mína skyldu að biðja þjálfarann um að nota mig ekki."

Hann segir að sér finnist ekki gott að spila seint á kvöldin eins og tíðkast oft á Spáni. „Það hefur haft sín áhrif á mig að spila klukkan tíu á kvöldin," sagði Abidal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×