Maria Sharapova vann ótrúlegan sigur á Justine Henin í fjórðungsúrslitum opna ástralska meistaramótsins í tennis, 6-4 og 6-0.
Þetta var fyrsta tap Henin síðan á Wimbledon-mótinu í júlí í fyrra og í fyrsta sinn sem Henin tapar í fjórðungsúrslitum á opna ástralska.
Sharapova vann síðustu sjö settin í leiknum og sögðu spekingar að þetta hafi sennilega verið hennar besta frammistaða á ferlinum. Henin er í efsta sæti styrkleikalista Alþjóða tennissambandsins og hefur verið það síðan í mars á síðasta ári.
Sjálf forðaðist hún að svara þeirri spurningu. „Mér leið eins og að ég væri bara í mínum eigin heimi. Ég reyndi ekkert að hugsa um þann árangur sem hún hefur náð á sínum ferli enda væri það fyrirfram tapaður slagur," sagði hún.
Fyrri lotan var æsispennandi og tók meira en klukkustund að klára hana. Eftir það var allur vindur úr Henin og Sharapova gekk einfaldlega á lagið.
Sharapova mætir í Jelenu Jankovic frá Serbíu í undanúrslitunum á fimmtudaginn kemur.
Jankovic vann Serenu Williams í fjórðungsúrslitum, 6-3 og 6-4.
Seinni tveir leikirnir í fjórðungsúrslitum kvenna fara fram í nótt. Þá mætast annars vegar Daniela Hantuchova frá Slóvakíu og Agnieszka RAdwanska frá Póllandi og hins vegar Venus Williams frá Bandaríkjunum og Ana Ivanovic frá Serbíu.