Hagnaður bandaríska bankans Bank of America nam 268 milljónum dala, jafnvirði rúmum 17,6 milljörðum íslenskra króna, á síðasta fjórðungi nýliðins árs. Til samanburðar nam hagnaðurinn 5,26 milljörðum dala á sama tíma í hitteðfyrra. Þetta er 95 prósenta samdráttur á milli ára.
Afkoman skrifast að langmestu leyti á afskriftir vegna bandarískra fasteignalána og kaupa bankans á fasteignalánafyrirtækinu LaSalle af hollenska bankanum ABN Amro á síðasta ári.
Tekjur námu 12,67 milljörðum dala á tímabilinu sem er 31 prósenti minna en á sama tíma ári fyrr.
Þetta jafngildir því að hagnaður bankans á tímabilinu nemur fimm sentum á hlut samanborið við 1,16 dali á hlut fyrir fjórða ársfjórðung 2006. Afkoman er talsvert undir væntingum markaðsaðila en þeir höfðu reiknað með 18 senta hagnaði á hlut á tímabilinu.