Ritstjóri danska Extrablaðsins segir að afsökunarbeiðni blaðsins til Kaupþings nái einungis til enskrar þýðingar á greinaflokki sem blaðið skrifaði um bankann. Þýðingin var sett á vefsíðu þess.
Ritstjórinn segir að það sem birtist á prenti í Danmörku sé utan við þetta enda hafi siðanefnd danskra fjölmiðla fellt úrskurð blaðinu í vil þegar Kaupþing kærði málið þangað. Kaupþing var ósátt við tíu greina úttekt Extrablaðsins á bankanum.
Kaupþing skýrði frá því í dag að blaðið hefði fallist á að biðja afsökunar og greiða skaðabætur vegna þessarar umfjöllunar.
Bent Falbert ritstjóri og ábyrgðarmaður Extrablaðsins sagði í samtali við Vísi að Kaupþing hefði farið þá óvenjulegu leið að höfða mál í þriðja landinu, Bretlandi.
Þeir hafi komist að því að í Englandi væru greinarnar lesnar öðruvísi en í Danmörku. Þær hafi verið lesnar þannig að verið væri að saka Kaupþing um glæpsamlegt athæfi. Það hafi blaðið ekki gert. Því hafi verið ákveðið að biðjast afsökunar á því ef hefði mátt skilja ensku útgáfuna með þeim hætti.
Falbert sagði að það væri geysilega dýrt að reka mál sem þetta í Bretlandi og því hafi samningaleiðin verið farin. Vefsíðan business.dk áætlar að málaferlin hefðu kostað Extrablaðið um 120 milljónir íslenskra króna.
Falbert vildi ekki segja hversu háa upphæð Extrablaðið hafi greitt í miskabætur.
Aðspurður um hvort þetta hafi einhvern eftirmála fyrir ritstjórn blaðsins, hvort til dæmis hans höfuð myndi fjúka, sagði Falbert svo ekki vera.