Fótbolti

Emil lék í tapleik Reggina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emil Hallfreðsson í leik með Reggina.
Emil Hallfreðsson í leik með Reggina. Nordic Photos / AFP
Reggina tapaði í kvöld fyrir Lazio í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, 1-0. Emil Hallfreðsson lék allan leikinn fyrir Reggina.

Þetta var fyrsti leikur Emils í byrjunarliði Reggina síðan liðið tapaði fyrir Sampdoria á útivelli þann 1. desember á síðasta ári. Hann svo inn á sem varamaður í leik gegn Torino í upphafi mánaðarins en hann hefur átt við þrálát meiðsli að stríða undanfarið sem hann virðist hafa hrist loksins af sér.

Reggina er í næstneðsta sæti deildarinnar með 21 stig, þremur stigum á eftir Catania sem er í sautjánda sæti.

Inter er enn á toppi deildarinnar en forysta er enn níu stig þar sem liðið gerði 1-1 jafntefli við Roma á heimavelli.

Inter er því enn taplaust á leiktíðinni, þökk sé síðbúnu jöfnunarmarki Javier Zanetti á 88. mínútu leiksins. Francesco Totti skoraði mark Roma í fyrri hálfleik og Phillipe Mexes, leikmaður Roma, fékk að líta rauða spjaldið á 84. mínútu.

Roma er í öðru sæti deildarinnar með 52 stig, níu stigum á eftir Inter sem fyrr segir. Juventus er í þriðja sæti með 48 stig en liðið gerði markalaust jafntefli við Torino í gærkvöldi.

Úrslit annarra leikja í kvöld:

Atalanta - Sampdoria 4-1

Catania - AC Milan 1-1

Fiorentina - Livorno 1-0

Genoa - Napoli 2-0

Palermo - Empoli 2-0

Parma - Udinese 2-0

Siena - Cagliari 1-0



Fleiri fréttir

Sjá meira


×