Royal Bank of Scotland, næststærsti banki Bretlandseyja, hagnaðist um 7,3 milljarða punda, jafnvirði um 950 milljarða íslenskra króna á síðasta ári samanborið við 6,2 milljarða í hitteðfyrra.
Þetta er um 18 prósenta aukning á milli ára og því glöddust hluthafar eðlilega enda hefur lausafjárþurrðin og afskriftir vegna áhættusamra skuldabréfavafninga bitið í afkomutölur fjármálafyrirtækja víða um heim upp á síðkastið.
Þar af nam rekstrarhagnaður bankans 10,3 milljörðum punda, sem er níu prósenta aukning frá fyrra ári. Tekjur námu 31,1 milljarði punda, sem er ellefu prósenta aukning frá í hitteðfyrra.
Stjórn bankans hefur ákveðið að hækka arðgreiðslur sínar til hluthafa um 10 prósent og munu þær nema 32,3 pensum á hlut fyrir afkomuna í fyrra, að sögn breska blaðsins Financial Times.
