Valsmenn urðu í dag bikarmeistarar í handbolta eftir 30-26 sigur á Fram í skemmtilegum úrslitaleik í Laugardalshöll. Valsmenn höfðu yfirhöndina frá fyrstu mínútu í leiknum, en Framarar gáfust þó aldrei upp og héldu spennu í leiknum.
Valsmenn skoruðu þrjú fyrstu mörkin í leiknum og voru með örugga forystu í fyrri hálfleiknum. Staðan var 16-9 fyrir þá rauðklæddu í hálfleik. Fátt benti til annnars en að Valsmenn myndu landa öruggum sigri eftir að liðið hélt sínu framan af síðari hálfleik, en Framarar minnkuðu muninn í þrjú mörk og sá munur hélst meira og minna síðustu tíu mínúturnar.
Varnarleikur Valsmanna skóp að mörgu leiti sigurinn í dag en Framarar gerðu sig líka seka um allt of marga tæknifeila í leiknum. Þeir gáfust þó aldrei upp og hleyptu spennu í leikinn aftur eftir að útlitið hafði verið mjög dökkt á kafla.
Arnór Gunnarsson og Baldvin Þorsteinsson voru markahæstir hjá Val með sjö mörk hvor en Andri Berg Haraldsson var atkvæðamestur hjá Fram með átta mörk.