Fótbolti

Zlatan er ekkert spes

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic, leikmaður Inter.
Zlatan Ibrahimovic, leikmaður Inter. Nordic Photos / AFP

Gömul hetja úr ítalska boltanum, Aldo Agroppi, segir að Zlatan megi alls ekki flokkast sem frábær leikmaður.

„Zlatan - frábær leikmaður? Hættu þessu gríni," sagði Agroppi og hló. Hann er fyrrum leikmaður ítalska landsliðsins og Torino.

„Svíinn er góður leikmaður en ekkert meira en það. Van Basten, Falcao, Roberto Baggio - þetta voru frábærir knattspyrnumenn. Platini var markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar í þrjú ár og vann þrjá Gullbolta. Ibrahimovc er ekkert í líkindu við það."

Ibrahimovic hefur verið mikið gagnrýndur á Ítalíu fyrir að hafa verið langt frá sínu besta í leikjum Inter gegn Liverpool í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Og þetta er ekki í fyrsta skipti sem Zlatan þykir ekki standa sig í stóru leikjunum og hefur hann fengið það orð á sig að standa sig ekki þegar virkilega á reynir.

Hann er þó næstmarkahæsti leikmaður ítölsku úrvalsdeildarinnar með fimmtán mörk en þar af hafa átta komið úr vítaspyrnum. Hann hefur aðeins skorað eitt mark gegn toppliðunum á Ítalíu - gegn Roma úr vítaspyrnu í 4-1 sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×