Fótbolti

Gullknötturinn er gallaður

AFP

Francesco Totti, leikmaður Roma, segir það hneyksli að Spánverjinn Raul hjá Real Madrid hafi aldrei unnið Gullknöttinn eftirsótta á ferlinum. Hann segir kjörið byggt á klíkuskap og að það sé fyrirfram ákveðið hver hljóti verðlaunin.

Það er franska knattspyrnutímaritið France Football sem veitir verðlaunin og hefur gert í meira en hálfa öld, en þau eru afhent þeim knattspyrnumanni sem þykir hafa skarað framúr á árinu. Það var Brasilíumaðurinn Kaka sem hlaut verðlaunin síðast.

"Það er hneyksli að maður eins og Raul sem hefur skorað grimmt og unnið allt sem hægt er að vinna hafi aldrei verið sæmdur þessum verðlaunum. Raul hefur skorað milli 20 og 30 mörk, orðið meistari á Spáni og unnið Meistarardeildina. Það að hann hafi ekki unnið bendir til þess að það sé fyrirfram ákveðið hver vinnur þessi verðlaun," sagði Totti.

Hann er sjálfur nokkuð hissa á því að hann hafi aldrei verið sæmdur Gullknettinum.

"Árið 2000 var líklega besta tækifærið mitt þegar við urðum meistarar og stóðum okkur vel í Meistaradeildinni. Ég veit ekki hvað ég hefði þurft að gera til að fá þessi verðlaun," sagði Totti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×