Max Mosley, forseti Alþjóða akstursíþróttasambandsins, ætlar í mál við breska vikublaðið News of the World sem birti frétt síðastliðinn sunnudag um hópkynlíf Mosleys með vændiskonum í nasistabúningum. Hann segist ekkert rangt hafa gert.
Mikil pressa hefur verið á Mosley að segja af sér vegna málsins en hann ætlar að berjast áfram. "Ég gerði ekkert rangt. Það sem gerðist var mitt einkamál og átti aldrei að fara í fjölmiðla. Ef ég hefði verið tekinn fyrir ofsaakstur eða keyrt undir áhrifum áfengis þá hefði ég hætt samdægurs," segir Mosley og vandar ekki blaðamönnum News of the World kveðjurnar.