Fótbolti

Umboðsmaður Mancini: Mourinho tekur við Inter

Mourinho er sagður við það að undirrita samning við Inter
Mourinho er sagður við það að undirrita samning við Inter NordcPhotos/GettyImages

Umboðsmaður þjálfarans Roberto Mancini hjá Inter segir að Mancini muni hætta störfum hjá félaginu og að Jose Mourinho verði ráðinn í hans stað.

Mourinho, sem áður stýrði Chelsea, hefur lengi verið orðaður við Inter og því hefur verið slegið föstu allar götur síðan Mancini lýsti því yfir að hann myndi hætta hjá Inter í kjölfar tapsins gegn Liverpool í Meistaradeildinni forðum.

Mancini dró yfirlýsingar sínar síðar til baka, en framtíð hans hefur þótt óráðin síðan. Umboðsmaður Ítalans hefur staðfest að Mancini sé að hætta hjá Inter og fullyrðir að Mourinho verði eftirmaður hans.

"Roberto átti ekki von á að ljúka veru sinni hjá Inter á þennan hátt og er mjög vonsvikinn. Hann langaði að reyna að ná enn betri árangri hjá félaginu og vinna Evróputitil, en nú kemur það í hlut Mourinho að toppa það sem Mancini hefur gert undanfarin ár," sagði umboðsmaður Mancini í kvöld.

Sagt er að Mourinho sé staddur í Mílanó í kvöld og að styttist í að hann skrifi undir þriggja ára samning sem færi honum 9 milljónir evra í árslaun eða rúman milljarð íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×