Erlent

Glæparannsóknir sem mölur og ryð fá ei grandað

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Smávinir fagrir, foldar skart.
Smávinir fagrir, foldar skart. MYND/Wikimedia.org

Nýjustu kenningar í skordýrafræðum gera fastlega ráð fyrir því að viss tegund mölflugna geti orðið lykillinn að glæparannsóknum í framtíðinni.

Mölflugur gera gott betur en að nærast á fatalörfum, þær hika ekki við að leggja sér eigendur fatanna til munns fái þær tækifæri. Vitað er að afbrigðið tinea pellionella nærist á mannshári og já, þetta örsmáa sköpunarverk étur einnig aðra hluta mannslíkamans sem það kemst í tæri við.

Þótt þetta hljómi ef til vill ekki spennandi fyrir þá sem eru að snæða morgunverðinn einmitt núna telur skordýrafræðingurinn Sibyl Bucheli við Sam Houston-ríkisháskólann í Texas þetta alls ekki slæmar fréttir. Við morðrannsóknir þar sem færa þarf sönnur á að mannslík hafi verið á ákveðnum stað á einhverjum tímapunkti gæti tækniliði lögreglu nægt að finna mölflugu af nefndri tegund á staðnum eða bara ham hennar.

Tegundin hefur nefnilega hamskipti og gamli hamurinn inniheldur oft leifar af þeirri fæðu sem dýrið hefur nærst á. Sé um hluta af manneskju að ræða, jafnvel aðeins bút af hári, nægir hann til að greina erfðaefni viðkomandi sem síðar getur orðið ómetanlegt gagn við að sanna hvort líkið hafi einhvern tímann verið á þessum tiltekna stað.

Þetta kann að hljóma langsótt en hefur þegar nýst við að upplýsa morðmál í Galveston í Texas í fyrra. Sannast þar hið fornkveðna, að eins dauði er annars brauð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×