Fótbolti

Beckham mun leggja Milan í rúst

Seedorf gerði grín að Beckham-æðinu sem ríkir í Mílanó
Seedorf gerði grín að Beckham-æðinu sem ríkir í Mílanó AFP

Hollenski reynsluboltinn Clarence Seedorf hjá AC Milan virðist vera orðinn leiður á fjölmiðlafárinu í kring um David Beckham ef marka má ummæli hans í ítölskum fjölmiðlum um helgina.

Beckham er genginn í raðir Milan sem lánsmaður frá LA Galaxy og þrálátur orðrómur er á kreiki um að vistaskipti hans verði gerð varanleg næsta sumar.

Seedorf sló á létta strengi þegar hann var spurður út í Beckham af blaðamönnum - enda ef til vill orðinn hundleiður á að svara spurningum um enska knattspyrnugoðið.

"Ég er viss um að ævintýri Beckham í A-deildinni eigi eftir að verða stórslys. Hann er dæmigerður vandræðagemlingur og skilur ekkert hvað við erum að segja við hann. Honum er alveg sama um liðið og hann hugsar aðeins um sjálfan sig. Ég mun ekki hjálpa honum, hann mun leggja þetta félag í rúst," sagði Seedorf - en dró svo í land.

"Auðvitað er ég að grínast. Beckham er leikmaður sem á eftir að falla vel inn í hlutina hérna," sagði Seedorf glettinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×