Fótbolti

Forseti Real: Erum ekki að steypa okkur í skuldir

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Florentino Perez.
Florentino Perez. Nordic Photos/Getty Images

Florentino Perez, forseti Real Madrid, segir að félagið verði ekki stórskuldugt eftir risakaupin á Kaká og Cristiano Ronaldo. Perez er meira að segja á því að Real muni græða á kaupunum til lengri tíma litið.

Perez þótti stórtækur þegar hann keypti Luis Figo og Zinedine Zidane til félagsins á sínum tíma en kaupin á Kaká og Ronaldo á einni viku er án nokkurs vafa það svakalegasta sem hefur sést í knattspyrnuheiminum.

Perez pungar út 56 milljónum punda fyrir Kaká og 80 milljónum fyrir Ronaldo. Er nema von að fólk spyrji sig hvaðan Real fái alla þessa peninga.

Perez segir að peningarnir komi frá félaginu sjálfu og segir kaupin vera góðar fjárfestingar.

„Við munum ekki steypa okkur í skuldir heldur getum við bætt fjárhaginn með því að einblína á þrjá hluti sem eru að auka miðasölu, auka bankalán og auka verðmæti félagsins," sagði Perez.

„Þessir peningar eru til staðar hjá félaginu og koma ekki frá mér. Real Madrid fær um 400 milljónir evra í tekjur á ári og er vel stætt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×