Handbolti

Guðmundur Ágúst: Þurfti að horfast í augu við raunveruleikann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Ágúst Ingvarsson, fyrrverandi formaður HSÍ.
Guðmundur Ágúst Ingvarsson, fyrrverandi formaður HSÍ.

Guðmundur Ágúst Ingvarsson segir mikla vinnu á erlendri grundu ástæðuna fyrir því að hann ákvað að draga framboð sitt til forseta IHF, Alþjóða handknattleikssambandsins, til baka.

„Ég gerði mér grein fyrir því að þetta væri mikil vinna og mikil fjarvera," sagði hann í samtali við Vísi í kvöld. „Ég sá þar með fram á að ég gæti ekki klárað þetta. Mér skilst að ég hefði þurft að vera hátt í 150 daga erlendis og eins og ástandið er í dag gengur það bara ekki."

Hann segir að þetta hafi runnið upp fyrir sér eftir því sem leið á kosningabaráttuna en kosið verður á þingi IHF í næsta mánuði. „Ég veit meira nú en þegar ég ákvað að bjóða mig fram. Þetta kom bara betur og betur í ljós eftir því sem ég talaði meira við fólk og aflaði mér upplýsinga."

Guðmundur Ágúst segir að kosningabaráttan hafi gengið vel hjá sér. „Allir sem fara í svona baráttu vita að menn lofa ýmsu en svo kemur annað í ljós þegar kosið er. En ég fékk mjög góð viðbrögð."

Sitjandi forseti sambandsins, Hassan Moustafa frá Egyptalandi, gefur aftur kost á sér í embættið og fær nú aðeins mótframboð frá Jean Kaiser frá Lúxemborg. Guðmundur Ágúst á ekki von á að sá síðarnefndi beri sigur úr býtum í kosningunum.

„Það er ekki mikil hefð fyrir handbolta í Lúxemborg og hann á undir högg að sækja. Ég hefði gjarnan viljað sjá breytta forystu í sambandinu en stundum verður maður að taka ákvarðanir sem manni líkar ekki endilega við - maður þarf að horfast í augu við raunveruleikann og taka því sem að höndum ber."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×