Handbolti

Frábær sigur á feikisterku liði Frakka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Árni Ólafsson hefur skorað 16 mörk í fyrstu tveimur leikjunum.
Guðmundur Árni Ólafsson hefur skorað 16 mörk í fyrstu tveimur leikjunum. Mynd/Heimasíða Selfoss

19 ára landslið karla hefur byrjað afar vel á HM í Túnis en liðið hefur unnið tvo góða sigra í fyrstu tveimur leikjum sínum. Ísland vann 29-24 sigur á Frökkum í gær en hafði unnið Puertó Ríkó með tólf marka mun kvöldið áður.

Leikur íslenska liðsins við Frakka var jafn og spennandi en staðan var 14-14 í hálfleik. Íslensku strákarnir voru hinsvegar miklu sterkari á lokasprettinum og unnu síðustu fjórtán mínúturnar 8-4.

Selfyssingurinn Guðmundur Árni Ólafsson, sem nýverið skipti yfir í Hauka, var markahæsti leikmaður íslenska liðsins með 9 mörk úr 12 skotum. Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska liðsins, var næstmarkahæstur með 6 mörk.

Strákarnir hvíla í dag en mæta síðan Brasilíumönnum á morgun.

Ísland-Frakkland 29-24

Mörk Íslands: Guðmundur Árni Ólafsson 9, Aron Pálmarsson 6, Benedikt Reynir Kristinsson 4, Ólafur Guðmundsson 4, Örn Ingi Bjarkason 3 og Heimir Óli Heimisson 3. Í markinu varði Arnór Stefánsson 10 bolta og Kristófer Guðmundsson 4.

Ísland-Puertó Ríkó 35-23

Mörk Íslands: Guðmundur Árni Ólafsson 7, Benedikt Reynir Kristinsson 5, Oddur Grétarsson 4, Þorgrímur Ólafsson 4, Ólafur Guðmundsson 4, Ragnar Jóhannsson 3, Róbert Aron Hostert 2, Halldór Guðjónsson 2, Stefán Sigurmannsson 2 og Aron Pálmarsson 2. Svavar Ólafsson varði 9(2) bolta í markinu og Arnór Stefánsson 7.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×