Handbolti

Svekkjandi jafntefli gegn Norðmönnum

Guðjón Valur Sigurðsson fagnar marki í leik með íslenska landsliðinu.
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar marki í leik með íslenska landsliðinu. Nordic Photos / AFP

Vísir var með beina lýsingu frá leik Íslands og Noregs í undankeppni EM 2010 en úrslitakeppnin fer fram í Austurríki á næsta ári.

Nánari umfjöllun um leikinn birtist á Vísi síðar í kvöld.

17.40: Fyrir leik hefði jafntefli ekki verið slæm úrslit en eins og þetta spilaðist var gríðarlega sárt fyrir íslenska liðið að missa þetta niður í jafntefli. Liðin eru því áfram efst og jöfn í riðlunum en leikurinn gegn Makedóníu á miðvikudag verður upp á líf og dauða. Farseðillinn til Austurríkis þarf því að bíða um stund.

17.37: 34-34 - Norðmenn jafna þegar fimm sekúndur eru eftir. Íslendingar ná ekki að koma skoti á markið. Gríðarleg vonbrigði fyrir Ísland sem leiddi allan leikinn.

17.36: 34-33 - Sigurbergur með skot yfir. Ein mín eftir og Norðmenn eru með boltann.

17.34: 34-33 - Mamelund minnkar muninn. 1 mín og 20 sek eftir.

17.34: 34-32 - Sigurbergur með risamark fyrir Ísland.

17.33: 33-32 - Alexander skorar og Norðmenn ná svo ekki að jafna. Tvær og hálf mínúta eftir þegar Ísland er í sókn.

17.32: 32-32 - Norðmenn jafna í fyrsta sinn síðan í upphafi leiks.

17.28: 32-31 - Íslendingar hafa í tvígang kastað frá sér fimm marka forystu. Nú eru fimm mínútur eftir og spennan er gríðarleg.

17.25: 32-29 - Alexander með sitt níunda mark í leiknum en Erlend Mamelund svarar með sínu ellefta marki. Þetta er langt frá því að vera búið.

17.24: 31-27 - Sigurbergur skorar sitt sjötta mark í leiknum. Þvílíkur leikur hjá stráknum.

17.22: 30-25 - Guðjón Valur skorar með glæsilegu skoti úr horninu.

17.20: 29-25 - Góður leikkafli hjá Íslandi og Þórir skorar þriðja mark Íslands í röð. Norðmenn taka leikhlé þegar ellefu mínútur lifa leiks.

17.18: 28-25 - Frábær varnarleikur hjá Íslandi skóp hraðaupphlaup sem Alexander skoraði úr. Hans áttunda mark í leiknum.

17.17: 27-25 - Guðjón Valur skoraði af vítalínunni eftir að Róbert hafði fiskað vítið.

17.15: 26-25 - Þetta er fljótt að breytast. Nú er stundarfjórðungur eftir og Ísland er búið að leiða leikinn frá fyrstu mínútu.

17.13: 26-23 - Heiðmar er mættur aftur og er búinn að skora tvö mörk í röð fyrir Ísland. Hann er kominn með sex mörk í leiknum.

17.12: 24-22 - Heiðar varði á mikilvægum tímapunkti. Það eru enn átján mínútur eftir af leiknum og íslenska liðið verður nú að taka sér tak.

17.10: 24-21 - Alexander skoraði sitt sjöunda mark fyrir Ísland. Norðmenn eru byrjaðir að ógna okkur verulega og eiga ekki í miklum erfiðleikum með að skora núna. Vörnin hjá íslenska liðinu er ekki jafn beitt og í fyrri hálfleik og markvarslan er dottin niður.

17.08: 23-18 - Snorri Steinn skorarar og svo Alexander.

17.06: 21-18 - Snorri Steinn stígur upp og skorar mikilvægt mark. Hreiðar er kominn í markið.

17.05: 20-18 - Norðmenn minnka muninn, manni færri.

17.02: 20-16 - Sjálfstraustið skín af Sigurbergi og hann skorar sitt fimmta mark fyrir Ísland. Norðmenn eru þó ekki langt undan.

17.00: Sigfús Sigurðsson sagði í viðtali við Rúv fyrir leik að Norðmenn væru oft góðir í æfingarleikjunum en gætu oft ekki neitt í stóru leikjunum. Við skulum vona að línumaðurinn stóri hafi rétt fyrir sér.

16.59: 19-15 - Þórir skoraði fyrir Ísland.

16.57: 18-14 - Sigurbergur skorar fyrsta mark Íslands í síðari hálfleik. Hans fjórða mark í leiknum.

16.56: Seinni hálfleikur hafinn. Snorri Steinn meiddist eitthvað í fyrri hálfleik en ekki er víst hve alvarlegt það sé og hvort hann geti haldið áfram.

16.47: Aðstoðarþjálfarinn Óskar Bjarni kvaðst sáttur með leik íslenska liðsins í viðtali við Rúv en ítrekaði að enn væru 30 mínútur eftir. Hann ætlaði jafnframt að hamra á því við íslensku leikmennina að pirra sig ekki um of á dómurum leiksins sem höfðu að hans mati dæmt meira með Norðmönnum. Íslendingar eru búnir að fá að fjúka nokkrum sinnum útaf í tvær mínútur, stundum fyrir litlar sakir.

16.46: Heiðmar og Alexander hafa verið öflugir fyrir Ísland og gaman að sjá hvað margir eru að stíga fram og taka ábyrgð. Björgvin Páll er búinn að vera öflugur í markinu en íslensku varnarmennirnir hafa lent í mestum vandræðum með línumanninn sterka Frank Löke.

16.45: 17-13 -Hálfleikur. Alexander skoraði síðasta mark Íslands í hálfleiknum. Hans fimmta mark í leiknum.

16.40: 16-11 - Guðjón Valur skorar tvö mörk í röð fyrir Ísland. Þvílík stemning í íslenska liðinu. Þeir eru að fara þetta á stemningunni og baráttunni. Norðmenn eru ráðalausir.

16.39: 14-10 - Járnkarlinn Alexander með sitt fjórða mark. Norsku varnarmennirnir ráða ekkert við hann.

16.37: 13-9 - Sigurbergur skorar. Það gengur allt upp hjá Íslandi í augnablikinu.

16.36: 12-9 - Guðjón Valur skorar úr víti sem Róbert fiskaði.

16.34: 11-8 - Alexander skorar af gríðarlegu harðfylgi og norskur varnarmaður fer út af í tvær mínútur. Dæmigert mark fyrir Alexander.

16.32: 10-7 - Snorri Steinn skoraði fyrir Ísland. Fyrsta skiptið sem Ísland nær þriggja marka forskoti í leiknum. Björgvin Páll er kominn með ellefu skot varin.

16.30: 9-7 - Sigurbergur skorar sitt annað mark fyrir Ísland. Frábært að sjá hvað hann og Heiðmar eru búnir að koma sterkir inn í íslenska liðið.

16.29: 8-7 - Alexander skoraði fyrir Ísland. Íslenska vörnin er aðeins byrjuð að gefa eftir.

16.23: 7-5 - Heiðmar skorar fyrir Ísland. Hann ætlar greinilega að sýna landsliðsþjálfaranum hvað í sér býr. Kominn með fjögur mörk.

16.21: 5-3 - Þórir skorar úr hraðaupphlaupi.

16.19: 4-2 - Heiðmar heitur. Skorar annað mark sitt í leiknum með góðu skoti.

16.18: 3-2 - Norðmenn skora sitt annað mark í leiknum eftir tæpar tólf mínútur.

16.16: 3-1 - Heiðmar skoraði gott mark eftir að Sigurbergur hafði opnað vel fyrir hann.

16.13: 2-1 - Markverðirnir komnir í gang. Steinar Ege er komin með fjögur skot varin og Björgvin Páll tvö. Íslendingar eru búnir að fá tvisvar sinnum tveggja mínútna brottvísun en vörnin er þétt og góð.

16.07: 2-1 - Sigurbergur skoraði annað mark Íslands en Norðmenn svöruðu að bragði.

16.05: Guðjón Valur og Þórir eru í hornunum, Sigurbergur og Alexander í skyttunum, Ragnar er leikstjórnandi, Róbert á línunni og Björgvin Páll í markinu. Sverre og Ingimundur koma svo inn í vörnina.

16.04: 1-0 - Alexander Peterson skorar fyrsta markið.

16.03: Leikur er hafinn - Íslendingar byrja með boltann.

16.00: Lið Íslands er þannig skipað:

Markverðir:

Björgvin Páll Gústavsson

Hreiðar Levý Guðmundsson

Aðrir leikmenn:

Vignir Svavarsson

Guðjón Valur Sigurðsson

Snorri Steinn Guðjónsson

Heiðmar Felixsson

Alexander Peterson

Sverre Jakobsson

Róbert Gunnarsson

Ingimundur Ingimundarson

Ragnar Óskarsson

Þórir Ólafsson

Sigurbergur Sveinsson

Andri Stefan Guðrúnarson

15.50: Snorri Steinn Guðjónsson er á skýrslu hjá Íslendingum í dag en ekki liggur ljóst fyrir hvað Guðmundur landsliðsþjálfari mun þora að nota hann mikið. Snorri er nýkominn úr meiðslum og annar mikilvægur leikur gegn Makedóníu á miðvikudag. Aron Pálmarsson er ekki með Íslandi í dag vegna meiðsla.

15.45: Velkomin til leiks. Vísir er með beina lýsingu frá landsleik Íslands og Noregs í undankeppni EM 2010. Sigur í dag tryggir Íslandi þátttökurétt á EM í Austurríki í næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×