Fótbolti

Ancelotti áfram hjá Milan

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ancelotti fær að stýra Milan áfram.
Ancelotti fær að stýra Milan áfram. Nordic Photos/Getty Images

Adriano Galliani, varaforseti AC Milan, staðfesti í dag að Carlo Ancelotti yrði áfram við stjórnvölinn hjá félaginu á næstu leiktíð. Mikil óvissa hefur verið um framtíð Ancelotti í vetur en þeirri óvissu hefur nú verið eytt.

„Framtíð AC Milan er Carlo Ancelotti. Carlo er eins og hjólreiðamaðurinn Fausto Coppi, einmana í stjórn. Hann er eini maðurinn í heiminum sem hefur unnið Meistaradeildina bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann þarf ekkert að sanna sig," sagði Galliani.

Jose Mourinho, þjálfari Inter, skaut hraustlega á nágrannaliðið á dögunum þegar hann minnti á að Milan væri eina liðið í sögunni sem hefði tapað úrslitaleik í Meistaradeildinni eftir að hafa komist 3-0 yfir. Galliani vildi lítið ræða það mál.

„Að svara Mourinho gerir ekkert annað en stækka egóið hans. Þess vegna mun ég aldrei svara honum aftur," sagði Galliani hálfpirraður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×